Ætla stjórnvöld að hundsa þetta líka ?

Það hafa verið uppi háværar raddir frá mörgum hagfræðingum og óháðum bankamönnum bæði innan lands og utan um það að verðtrygginguna verði að afnema.
En innlendir stjórnmálamenn og Íslenskir bankamenn og og verkalýðsleiðtogar virðast ætla að flækja það fyrir sér að afnema þessi ólög, sem sett voru með Ólafslögum. Sem áttu einungis að vera tímabundin.
Þegar kemur að veigamiklu máli sem er augljóslega, bæði mannréttindabrot og leyfi fyrir ólöglega samninga. Gjörsamlega siðlaust og algjör nauðsyn að afnema, þá snýst þessi tvíhöfða ríkisstjórn í hringi og gerir ekkert. Þegar stjórnvöld bera fyrir sig rök um að lífeyrir ömmu skerðist er fokið í flest skjól.
Amma var heldur ekki spurð að þessu. Heldur voru það hagfræðingar sem blindaðir eru af einhverjum hagsmunum sem sögðu að Amma mundi missa sitt. En satt er að lífeyrir ömmu skerðist fyrir verðbólgu sem verðtryggingin kyndar undir.
Stjórnmál þurfa ekki að vera svona flókin og spillt. Þetta er í raun miklu einfaldara en það lítur út fyrir að vera.
En allt snýst þetta um vilja stjórnmálamanna til að standa fyrir réttlæti og sanngirni. Og að líta á orsök en ekki afleiðingu.
Það eru 63 þingmenn á þingi. Rísið nú af blundi. í Guðanna bænum. Ekki fresta því sem er nauðsynlegt fyrir lýðræðisþroska og réttlæti. Kosningalög og verðtrygging, og fara eftir tilmælum mannréttinda dómstóla varðandi fiskveiðistjórn. Nýja stjórn í seðlabanka og kosningar.
Margir sem hlusta á gagnrýnisraddir segja að þær séu allt of neikvæðar og ekki með neinar tillögur.
En það er langt frá því að vera satt, jafnvel þótt ríkisstjórn haldi því fram að ekkert komi fram í lausnarformi.
Allar þær grunn tillögur þeirra raddda sem mótmæla ríkisstjórn standa enn sem fullgildar og nauðsynlegar tillögur.
Ég veit ekki hvort stjórnvöld eru enn í einhversskonar áfalli eftir hrunið. En ég vona að fríið hafi þau notað til að leggjast undir feld og komast að þeirri niðurstöðu um hvað sé farsælast fyrir okkur öll. Stjórnvöld eru örugglega frekar sár yfir því að vera komin með þjóðina svona upp í andlitið á sér. En hún verður að komast yfir þá uppifun, því hún hverfur ekki í nánustu framtíð.
Nú verða stjórnvöld að taka leiðsögn. Það gengur ekki,lengur að selja atkvæði sitt.
Annars er voðinn vís.
Framtíð okkar er að veði.


mbl.is Íslensk stjórnvöld harðlega gagnrýnd
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nákvæmlega hvað felur afnám verðtryggingar í sér?

Jú, þeir sem skulda þurfa að borga minna og fá afslátt á öllum sínum skuldum.

Einhvers staðar verða peningarnir þó að koma frá til þess að koma móts við afnám verðtryggingar. Ekki er einungis hægt að strika með penna yfir verðtrygginguna og ætlast til að þar með sé málið dautt. Til þess að koma í veg fyrir hrun lánastofnanna þyrfti því að leggja á einhvers konar skatt eða gjöld til að vega upp á móti því fjárstreymi sem glatast við afnámið.

Þeir sem munu borga þessi gjöld eru þeir sem hvað minnst skulda. Þeir sem munu borga þessi gjöld eru þeir sem að hafa sparað undanfarin ár og neitað að taka þátt í því eyðslufylleríi sem gengið hefur yfir þjóðina.

Ég, sem á engan flatskjá, gamlan bíl, hef leigt litla íbúð í mörg ár, versla mér föt ca. einu sinni á ári, hef ekki farið til útlanda í frí í fleiri, fleiri ár og er samt með 600.000 kall á mánuði í laun er sá sem þarf að borga.

Ég, sem að lifði ekki eins og hann væri með fleiri, fleiri milljónir í laun á mánuði. Ég horfði upp á fólk með mun lægri tekjur en ég kaupandi sér dýrari bíla eða tvo. Ég horfði upp á þá fara í ferðalög erlendis á hverju ári.

Ég horfði upp á fólk kaupandi sér stærri og dýrari íbúðir en það þurfti, oft með sérherbergi fyrir hvern einasta krakka. Ég horfði upp á þau fleygja fötum af elstu börnunum sínum í stað þess að geyma þau þar til hin yngri gætu notað. Ég horfði upp á þau verslandi sér fjöldan allan af nýjum klæðnaði og skóm. Ég horfði upp á þau verslandi dýr leikföng og jafnvel tölvur handa krökkunum sínum.

Ég horfði upp á þau versla sér ný húsgögn til að fylla upp í húsið og svo endurnýja þau reglulega. Ég horfði upp á þau endurinrrétta þó engin þörf væri á. Ég horfði upp á þau oft kaupandi sér nokkrar tölvur per heimili. Ég horfði upp á heimili með flatskjái og heimabíó þó þörfin væri lítil. Ég horfði upp á fólk síendurnýjandi farsímana sína og tölvur.

Ekki falla allir þeir skuldsettustu í allar ofantaldar gryfjur, en margir þó. Flestum þeirra fannst þau eiga ekkert minna skilið og lifðu á fáránlegum lánum.

Ég með minn 600.000 kall á mánuði lifði á lægri lífsstandard en flestir mínir kunningjar með einungis brot af mínum mánaðalaunum. Ég lifði á _mun_ lægri standard en flestir mínir kunningjar á sömu launum. Ekki skipti miklu hversu há launin voru, fátækir og ríkir voru í miklum mæli að lifa langt umfram tekjur, einfaldlega af því þeim fannst þau eiga það skilið.

Núna kemur þetta fólk og heimtar afslátt af öllum sínum skuldum af því þeim finnst það eiga það skilið. Þau heimta að fólk eins og ég, sem að virkilega lifði innan réttra marka, eigi að borga mismuninn, einfaldlega vegna þess að þeim finnst þau eiga það skilið.

Veistu hvað Vilhjálmur, ég er nánast skuldlaus maður í dag einfaldlega af því að ég sætti mig við gömul húsgögn. Ég sætti mig við gamlan bíl. Ég sætti mig við að taka strætó af og til. Ég sætti mig við að ganga um í gömlum fötum. Ég sætti mig við að leigja litla íbúð. Ég sætti mig við að nú væri fjárhagslega ekki rétti tíminn fyrir mig að stofna fjölskyldu. Ég sætti mig við að sleppa utanlandsferðum. Ég sætti mig við ýmislegt.

Hvers í ósköpunum á ég að gjalda til þess að fá þínar skuldir yfir mig? Það er fólk í þessu þjóðfélagi sem sparaði og er í litlum vanda. Það er þetta fólk sem mun þurfa að borga fylleríið hjá restinni ef að verðtryggingin verður afnumin. Ég held að fólkið í landinu þurfi að líta aðeins meira í eigin barm þegar kemur að þeirra eigin fjárhagsvandræðum. Íslendingar voru á neyslufylleríi og neita að viðurkenna það. Þetta er allt einhverjum öðrum að kenna.

Svo er ekki og ég hef nákvæmlega engan áhuga á að borga skuldir fólks sem taldi sig vera að lifa innan réttra marka, en var í raun að lifa LANGT UMFRAM ÖLL EÐLILEG MÖRK. Flestir skuldarar sem ég þekki falla BEINT í þennan hóp og flestir þeirra eru, eins og þú, að heimta að ég borgi skuldirnar fyrir þá. Ég á nóg með að borga Icesave, ekki vil ég að flatskjáir og uppsprengdar íbúðir þjóðarinnar bætist þar ofan á.

Þór (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 21:25

2 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þór, hvernig færðu það út að menn fái afslátt af lánum sínum, ef verðtrygging er afnumin.   Það er hvorki náttúrulögmál né hagfræðilögmál að peningar eigi alltaf að leiða af sér jákvæða raunávöxtun.  Almenna viðmiðið er jákvæð nafnávöxtun.  Ef fjármagnseigendur geta tryggt sig fyrir verðbólgu, þá er leikurinn ójafn.  Annar þátttakandinn í samningnum getur ekki tapað og hinn getur ekki unnið.  Þannig virkar verðtryggingin.

Með því að afnema verðtrygginguna eiga báðir aðilar möguleika á hagstæðri útkomu.  Fjármagnseigandinn þarf að finna rétt "verð" á vöruna sína sem lántakandinn sættir sig við.  Í dag er um þvingaða samninga að ræða og ekki bara gagnvart verðtryggðum lánum, heldur líka óverðtryggðum lánum.  Þess vegna fóru fyrirtæki og einstaklingar þá leið að taka erlend lán.  Til að komast í heilbrigt vaxtaumhverfi.  Ég hef að vísu enga trú á því að erlendu lánin hafi í raun og veru verið "erlend".  Það var bara viðmiðið sem var í gjaldeyri og þess vegna varð krónan að falla til að það borgaði sig fyrir bankana að lána í erlendri mynt.

Marinó G. Njálsson, 10.1.2009 kl. 21:47

3 identicon

Marínó.

Hreint afnám verðtryggingar án nokkurra mótvægisaðgerða gagnvart lánastofnunum myndi að SJÁLFSÖGÐU hafa í för með sér gjaldþrot lánastofnananna. Lánastofnanir falla um sjálfar sig um leið og hagnaður af lánastarfsemi hverfur.

Eins og staðan er í dag myndu þær ekki einu sinni koma út á núllinu ef verðtrygging yrði afnumin. Þær myndu annað hvort fara allsvakalega á hausinn eða þá að ríkið myndi þurfa að hlaupa undir bagga og koma til móts við þær.

Ísland má svo sannarlega ekki við því að lánastofnanir landsins falli allar á næsta ári.

Hvað lán varðar, enginn sér sér hag í að lána nema að hann viti að hann eigi eftir að græða á því. Þetta er enginn leikur, þetta eru viðskipti. Þú tekur lán vitandi það að sá sem lánar þér er einungis að hugsa um eiginn hag, alveg eins og þú ert yfirleitt að hugsa um þig og þína þegar þú tekur lán.

Ef verðtrygging væri ekki til staðar væru einfaldlega breytilegir vextir við líði, sem að myndu hafa í för með sér nákvæmlega sömu afleiðingar og verðtryggingin hefur í dag. Bankarnir eru ekki að græða fúlgur fjár á verðtryggingum og breytilegum vöxtum, þær eru einfaldlega að verja sína lánastarfsemi. Það er nákvæmlega ekkert óréttlátt við það.

Af hverju ættu stofnanir að vera að lána þér á annað borð ef þær munu ekki græða á því? Þá væri peningunum einfaldlega betur varið í einhverjum risk free securities eins apalegt og það nú er. Það myndi einfaldlega hafa í för með sér gríðarlega takmarkað lánsfjárframboð til almennings.

Nei, þeir sem taka lánin eiga að gera sér grein fyrir því hvað þeir eru að fara út í. Þetta er áhætta sem þeir eru að taka. Helsta vandamálið í dag er að flestir þeir sem eru í vandræðum í dag virðast einfaldlega hafa neitað að spá í hvað myndi gerast ef að allt færi á versta veg. Þegar fólk er að lifa GJÖRSAMLEGA á mörkunum í miðjum mesta efnahagsuppgangi þjóðarinnar, þá er það að spila MJÖG hættulegan leik. Þegar staðan er hvað best, áttu að eiga sem mest 'in case of a rainy day'. Það var svo sannarlega ekki mottóið á Íslandi undanfarin ár. Fólk eyddi því sem það átti og gott betur.

Þór (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 22:17

4 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þó, það hefur aldrei verið rætt um að hægt væri að afnema verðtrygginguna án þess að eitthvað kæmi í staðinn.  Auðvitað munu vextir hækka til að byrja með.  En vextir mega ekkert frekar en annað bara hækka óhindrað.  Það eru gerðir samningar um slíkt.  Ég hef lagt til á blogginu mínu, að farin verði svipuð leið og í Danmörku og sett þak á vexti á húsnæðislánum.  Það yrði því sameiginlegt hagsmunamál skuldara og lánadrottna að halda verðbólgunni niðri.

Það eru einhver trúarbrögð hér á landi, að vextir verði að vera háir.  Það er bara bull eins og að verðlag verði að vera hærra hér en annars staðar.  Fjármagn þarf ekkert að vera dýrara hér en í Danmörku eða Englandi.  Því hefur bara verið leyft að vera hærra hérna.  Vaxtastig og ávöxtunarkrafa haldast í hendur.  Ástæðan fyrir því að ekki er unnið eins mikið gegn verðbólgu og raun ber vitni, er að fjármagnseigendur fá verðbólguna alltaf bætta.  Það er enginn hvati í því fyrir þá að vinna gegn verðbólgunni.  Á sama hátt ýtir þetta undir þörf fyrir hærri ávöxtun hér á landi en þörf er fyrir annars staðar.  Málið er að raunávöxtunin er ekkert betri.  Líklegast er hægt til langframa að ná sömu raunávöxtun á verðtryggingar.  Það gerist ekki strax, en um leið og við erum búin að "afeitra" fjármálakerfið, því verðtryggingin er ekkert annað en eitur, þá fer það að virka rétt án hennar.

Marinó G. Njálsson, 10.1.2009 kl. 22:35

5 Smámynd: Diesel

Mér reiknast það þó samt til að ef að íslenska ríkið tæki á sig "tap" lánastofnanna þá væri sú upphæð töluvert mikið minni en allt IceSave sullið og það sem því fylgir.

Svo er það nú svo, að lánastofnanirnar eiga í raun ekki þessa peninga sem eyrnamerktir eru þeim með verðtryggingunni. Hvernig getur þá verið að það þurfi að borga þá? Þær fá enþá borgaðann höfuðstólinn og ríflega vexti. Er það ekki bara sanngjarnt?

Diesel, 10.1.2009 kl. 23:18

6 identicon

Marinó.

Einu aðgerðir við afnám verðtryggingar sem ég myndi setja mig upp á móti væru þær sem að hefðu í för með sér að fólk í minni aðstöðu þyrfti að greiða mismuninn á því sem upp á vantar.

Ég tel mig hafa útskýrt ástæður þess hér að ofan.

Ef þú veist um aðgerðir við afnám verðtryggingar sem engin áhrif hafa á mig og aðra Íslendinga í svipaðri aðstöðu, þá hef ég vísast til ekkert út á þær að setja.

Þór (IP-tala skráð) 10.1.2009 kl. 23:42

7 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Frábær skrif um eldheitt efni. Ekki er það mat þeirra sem mest vita um þessi málefni að verðtrygging sé eðlileg leið fyrir banka að tryggja sig fyrir tapi. Ef banki fær að athafna sig í þessu áhættulausa umhvefi, freistast bankinn til að lána þeim sem ekki hafa efni á því og einnig hefur banki engar áhyggjur af því að skapa verðbólgu með útlánum sínum vegna þess að útlán hanns eru verðtryggð.

Þetta skapar því tvöfalda móralska hættu sem fríar banka allri ábyrgð. Og skapar kjöraðstæður fyrir þenslu og gengisfellingu.

Þetta er einfaldlega ekki verjandi.

Og ég veit að það er fullt af fólki sem er ekki búið að vera að bruðla eins og margir virðast tala um. Og sú skýring að fólk ætti ekki að fá sér húsnæði vegna þess að allt gæti farið á vesta veg er ekki alveg málið, vegna þess að við erum með seðlabanka sem á að sjá til þess a halda verðbólgu í skefjum. En það sem stjórnvöld og seðlabanki gera er að saka borgara sína um glæfraskap og eyðslusemi. Þegar sannleikurinn er að bankar og stjórnvld bera ábyrgð á efnahagsástandinu. Útlán til neyslu ollu bara broti af vandanum. Vandinn er allur skapaður af ákvörðunum stjórnvalda. Og útgáfu krónubréfa. Sem er einnig verðbólgu aukandi. Hver heimilaði útgáfu jöklabréfa.

En það er gömul saga að ábyrgðinni sé kastað á borgarana.

Eins gömul og okkar þjóðkirkja.

Og eins og segir í Jesaja.

Silfur þitt er orðið að sora, vín þitt vatni blandað.

23

Höfðingjar þínir eru uppreistarmenn og leggja lag sitt við þjófa. Allir elska þeir mútu og sækjast ólmir eftir fégjöfum. Þeir reka eigi réttar hins munaðarlausa, og málefni ekkjunnar fær eigi að koma fyrir þá.

24

Fyrir því segir hinn alvaldi Drottinn allsherjar, hinn voldugi Ísraels Guð: Vei, ég skal ná rétti mínum gagnvart mótstöðumönnum mínum og hefna mín á óvinum mínum.

25

Og ég skal rétta út hönd mína til þín og hreinsa sorann úr þér, eins og með lútösku, og skilja frá allt blýið.

26

Ég skal fá þér aftur slíka dómendur sem í öndverðu og aðra eins ráðgjafa og í upphafi. Upp frá því skalt þú kallast bær réttvísinnar, borgin trúfasta.

27

Síon skal endurleyst fyrir réttan dóm, og þeir, sem taka sinnaskiptum, munu frelsaðir verða fyrir réttlæti.

Takið eftir að þarna er Jesaja að tala um verðbólgu eða útþynningu silfurs og víns.

Verbólga er siðlaus, þjófnaður sem á ekki að lýðast, en stjórnmálamenn komast upp með að gefa okkur afsakannir fyrir þjófnaði sínum ár eftir ár.

Martin Lúther sagði í pistli sínum um Rómverjabréfið, að dómur Guðs biði þeirra stjórnenda sem settu ástæðulausa skatta á fólk, eða með því að breyta eða gjaldfella gjaldmiðilinn og á sama tíma ásaka borgara sína fyrir græðgi og óhóf.

Ég er ekki að skella þessu framm til að meiða einn eða neinn heldur til að gera mönnum ljóst að það er ekki ný plata sem stjórnvöld spila og hún er biluð.

Vilhjálmur Árnason, 11.1.2009 kl. 00:05

8 Smámynd: Marinó G. Njálsson

Þór, afnám verðtryggingarinnar mun hafa minni áhrif á þig og "aðra Íslendinga í svipaðri aðstöðu" en þetta rugl sem gengið hefur á síðasta árið.  Afnám verðtryggingarinnar mun leiða af sér til lengdar mikla kjarabót fyrir alla, þar sem verðbótatengingar verða ekki bara rofnar við lán heldur út um allt þjóðfélagið.  Heldur þú virkilega að þú fáir alltaf bætt upp í laununum þínum visitölutengdar hækkanir?  Gleymdu því.  Núna um áramótin var hrúgað inn alls konar "vísitölutengdum" hækkunum á hinum og þessum þjónustuliðum.  Þessar hækkanir valda svo meiri hækkun vísitölu, sem valda aftur "vísitölutengdum" hækkunum.  Á öðru bloggi sem ég las í dag er vísað til þess að verðtrygging sé ofmetin um 0,5 - 2% á ári, sem þýðir að árlegar hækkanir eru meiri en raunveruleg verðbólga.  Þetta er samkvæmt frétt á vef Seðlabankans.

Við erum eins og drykkjusjúklingur, sem getur ekki hætt að drekka vegna þess að þá líður honum svo ill.  Hann áttar sig bara ekki á því að eftir ákveðið erfiðleikatímabil, kemur tímabil með meiri lífsgæði.

Marinó G. Njálsson, 11.1.2009 kl. 00:12

9 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Takk fyrir skrifin Marínó,þú hefur alltaf svo greinargóðar upplýsingar um þessa hluti að það er yndislegt. Og það vekur áhuga minn að lesa skrif þín um efnahaginn, og hagfræðina. Og takk ykkur hinum fyrir að hafa skoðannir og viðra þær með okkur hinum.

Takk fyrir.

Vilhjálmur Árnason, 11.1.2009 kl. 02:12

10 identicon

Marino.

Það segir mér afskaplega lítið að þetta hafi minni áhrif á mig heldur en allt ruglið sem gengið hefur yfir undanfarið ár, þar sem það allt saman er nóg fyrir.

Ef að ofan á það þyrfti ég að borga skuldir þeirra sem neita að trúa að þeir hafi lifað um efni fram undanfarin ár þá þætti mér það ansi miður. Því miður tel ég að ég og, já, fólk í minni aðstöðu muni neyðast til að borga fyrir neyslubrjálæðið og lífsgæðakapphlaupið undanfarin ár.

Hvort er ósanngjarnara, að heimta að aðrir borgi þín lán eða að heimta að þú þurfir ekki að borga lán annarra? Mér finnst satt best að segja nóg hafa yfir mig gengið undanfarið ár án þess að ég þurfi að fara að borga verðtryggingu annarra ofan á.

Fólk á einfaldlega að borga sínar eigin skuldir, ekki að fara hlaupandi til nágrannans og reyna að útskýra fyrir honum að það sé öllum til góða að hann borgi skuldirnar fyrir sig.

---------------------------------------------------

Vilhjálmur.

Varðandi íbúðir. Veit ekki hvort þú leggir í að lesa gegnum þetta allt.

Ég held að þú myndir ekki trúa því að ég væri með master's gráðu í Verkfræði og laun upp á 600.000 krónur á mánuðinn ef þú kæmir heim til mín. Ef til vill hefðirðu trúað því fyrir 10 árum síðan, eða svo, en í dag bý ég líklega eins og maður á ca. 250.000 kr. á mánuði, ef miðað er við Íslendinga undanfarin ár... ef ekki minna?

Ég er með eitt baðherbergi, eldhús, borðstofu og stofu/sjónvarpskrók. Þvottahúsið er sameiginlegt með restinni af húsinu. Eitt svefnherbergi er í íbúðinni. Eitt stórt CRT sjónvarpstæki er í íbúðinni, ásamt DVD spilara sem mér var gefinn. Engar græjur og ekkert heimabíó. Ein tölva er á heimilinu og dugar hún einnig fyrir öllum okkar tónlistarþörfum.

Flest húsgögn fékk ég gefins, allt nema rúmið í reynd. Það var MJÖG auðvelt að fá gefins húsgögn á Íslandi undanfarin ár, ef þú gast sætt þig við 10+ ára gamla hluti. Ekki fannst mér það nú erfitt.

Það er nóg fyrir mann á 600.000 krónum á mánuðinn að leigja litla kompu eins og þetta fyrir sjálfan sig og kærustu.

Ég hef sjálfur tekið ákvörðun um að fresta barneignum þar til ég á efni á almennilegu húsnæði fyrir krakkana. Það mun gerast fyrir þrítugsaldurinn, þannig að ekki er fórnin mikil.

Enn meira varðandi íbúðir.


Bara svona til að gefa þér sýn á hvernig fólk sætti sig við að alast upp fyrir ekki nema rétt rúmum 15-20 árum síðan.

Ég eyddi fyrstu 17 árum ævi minnar annað hvort með báðum eða öðrum bróður mínum í herbergi.

Foreldrar mínir höfðu meiri áhyggjur af því að spara og safna fyrir hlutunum heldur en að börnin þeirra fjögur væru öll í sérherbergi. Öll mín föt fékk ég í arf frá eldri bróður mínum, að afmælis- og jólagjöfum undanskildum. Þau föt fóru svo öll aftur í arf til míns yngri bróður.

Bílarnir voru alltaf algjörir skrjóðar og húsgögnin voru flest gefins, það var heldur ekki erfitt að fá húsgögn gefins í þá daga. Húgögnin voru mörg mjög ljót, átta ég mig á í dag, en þau dugðu minni sex manna fjölskyldu nokkuð vel.

Aldrei var farið í utanlandsferðir með allri fjölskyldunni, þegar ég var ca. 15 ára fóru foreldrar mínir fyrst til útlanda, þá ein tvö. Sjálfur fór ég fyrst til útlanda 20 ára gamall, þá í útskriftarferð sem ég hafði safnað fyrir. Síðan þá hef ég þrisvar farið erlendis í öðrum tilgangi en atvinnutengdum.

Svona ólst ég upp þó foreldrar mínir voru til samans með vel yfir milljón krónur á mánuðinn, sem þótti ansi mikið í þá daga.

Hvar standa foreldrar mínir í dag? Eftir allan sinn sparnað? Þau eiga einbýlishús á besta stað og skulda ekki eina krónu af því. Þau eiga bíla sem þau skulda ekkert af. Þau eru skuldlaust fólk á besta aldri með fjögur, skuldlaus og háskólagengin börn. Lífsstíllinn virðist því engin slæm áhrif hafa haft á krakkana heldur, 2-4 í herbergi eður ei.

Þú segir að stjórnmálamenn reyni að skella allri ábyrgðinni á hinn almenna borgara. Öll ábyrgðin er hins vegar ekki hins almenna borgara, en í flestum tilvikum reynir hinn almenni borgari þó að neita því að hann sé hluti vandamálsins í dag, neitar því að hann hafi gert nokkuð rangt.

Segðu mér nú, hversu margir telur þú að hafi lifað gegnum góðærið eins og ég og foreldrar mínir höfum gert allt okkar líf? Hversu margir sættu sig við gamla hluti og þröngar íbúðir þegar þeim bauðst svakaflott lán í bönkunum í staðinn? Sérstaklega fyrst allir vinirnir og kunningjarnir voru að taka lán líka?

Ég þekki ekki marga sem sættu sig við mín kjör, þó þekki ég marga sem blekkja sjálfa sig í þeirri trú að þau hafi lifað ódýrt undanfarin ár.

Íslendingar hættu að nenna að bíða eftir því getað að lifa lífinu á góðum standard, það er helsta ástæða fjárhagskraggna íslenskra fjölskyldna í dag. Þjóðin tók framhjáhlaup í lífskapphlaupinu og er að súpa seyðið af því. Það neitaði að trúa því að góðærið gæti endað með skelli og tók því fáránlega áhættu í sínum fjármálum.

Eftir nokkur ár verð ég enn nánast skuldlaus miðað við meirihluta Íslendinga og ég mun auðveldlega lifa á þeim standard sem ég kýs. Eina fórnin er sú að lifa þröngt í dag og að hafa safnað upp ágætis fjármunum í góðærinu, í stað þess að eyða og taka forskot á sæluna. Lítil fórn, en fórn sem fæstir sættu sig við. Flestum fannst þeir eiga meira skilið og fjármögnuðu það með öfga-lánum.

Ég afsaka ef ég hljóma reiður. Þetta er líklega einnig lélega skrifað, enda er ég orðinn þreyttur. Mér finnst bara stefna í enn meiri ósanngirni í garð þeirra er neituðu að taka þátt í neyslufylleríi undanfarinna ára. Þeirra sem hafa nennt að spara og safna allt sitt líf, í raun. Oft mæti ég engu nema efasemdum þegar ég segi fólki sem heldur að það hafi lifað ódýrt hvernig ég sjálfur bý.

Þór (IP-tala skráð) 11.1.2009 kl. 02:39

11 Smámynd: Guðmundur Eyjólfur Jóelsson

Þór ég sé nú ekki alveg hvernig þú færð út að þú þurfir að borga fyrir skuldir sem aðrir hafa stofnað til .Þú lagðir það á þig að safna og hefur eflaust tapað eitthverju á bankahruninu en hvernig getur þú kennt jóni eða Gunnu um það

Það sem þau gerðu var að gera það sem bankarnir ráðlögðu þeim og treystu því að þetta fólk sem starfaði í fjármálageiranum vissi um hvað það væri að tala ,en því miður þá var það ekki svo ,en þú getur ekki kennt því fólki um hvernig komið er í dag .

Þú ákvaðst að spara en aðrier ákváðu að fjárfesta fyrir sig og börn sín báðir aðilar töpuðu en þó meir töpuðu þeir sem skulduðu ég get ómögulega séð hvernig þú færð það út að þú eigir að borga fyrir þann sem skuldaði ,þetta er dæmi sem ekki gengur upp .Ég óska þess að þú lifir góðu lífi með það sem þú hefur unnið þér til Það er eins og stendur einhverstaðar : Þú uppskerð eins og þú sáir . 

Guðmundur Eyjólfur Jóelsson, 11.1.2009 kl. 03:16

12 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Kæri Þór. Ég skil óánægju þína og sýn á þessa hluti. Og það sem ég finn í ræðu þinni er að þú vilt velta ábyrgðinni á fólkið sem tók lán.

En kæri vinur. Fólk tók á sig skuldbindingar og sætti sig við að borga háa vexti og afborganir í vissum ramma. En rammin var rofinn af yfirvöldum á Íslandi.

Þú vilt kenna fólkinu í landinu um og það er það sem stjórnvöld vilja gera.

Þá tekur þú þér stöðu með Geir Harde og viðskiptaráði. Og það sem ræða þín segir er í raun bankar og stjórnvöld bera enga ábyrgð í þessu þetta er bara fólkinu að kenna.

Það er að mínu áliti afstaða sem auðvaldið tekur gegn Borgurum . Og er algjör fyrring á ábyrgð.

Það er ábyrgð stjórnvalda að halda verðgildi gjaldmiðils. Hvað sem stjórnvöld þurfa að gera til þess er þeirra verkefni. Ef þau þurfa að stöðva útlán herða reglur banka.

Það er á ábyrgð seðlabanka og stjórnvalda að halda verðgildi krónunnar.

það er ekki Jóni og Gunnu að kenna að Seðlabanki og fjármálastofnanir virki ekki eins og þær eigi að gera.

Vilhjálmur Árnason, 11.1.2009 kl. 19:38

13 identicon

Guðmundur.

Ég tel mig þurfa að borga einhvern mismun ef verðtrygging verður afnumin. Ég hef á tilfinningunni að sá mismunur verði ekki óverulegur, jafnvel einhverjir þúsundkallar á mánuði þegar allt kemur til alls. Jafnvel meira ef óbeinar afleiðingar, sem ég get ekki séð fyrir, verða teknar með. Ég tel svo vera því ég sé ekki hvar peningurinn til að borga fyrir afnám verðtryggingar muni koma frá annars staðar en beint úr ríkissjóði. Þetta mun hafa í för með sér að skuldafólk myndi, í raun, fá afslátt á sínum skuldum, greiddan fyrir af þeim skuldalitlu sem sama og ekkert græða á afnámi verðtryggingar.

Hvað fjárhagstap mitt varðar, þá er það sama og ekkert. Ég er einn þeirra sem tók mark á þeim fjölda skýrsla, sem vísað var til í fjölmiðlum undanfarin ár, er deildu hart á íslenskt efnahagslíf. Um leið og ég sá að bankar vestanhafs voru að lenda í vandræðum flutti ég mest af mínum fjármunum erlendis, í svokölluð 'risk free securities'.

Auk þess fjárfesti ég í heilmiklum erlendum gjaldeyri meðan krónan var allt of sterk og dollarinn var einungis 60 króna virði. Það var á svipuðum tíma sem flestir Íslendingar voru að taka sín al-hæstu lán, og jafnvel gangandi svo langt að taka gjaldeyrislán, jafnvel þótt krónan væri allt of sterk.

Allt saman mjög einfaldar ákvarðanir, en ég býst við að nöldra á mogga-bloggi um að hagfræðingar erlendis voru bara öfundsjúkir var ef til vill enn auðveldara?

---------------------------------------------------

Vilhjálmur & Guðmundur.

Guð minn almáttugur, ég tel bankastjórnir og yfirvöld alls ekki saklaus. Ég tel að báðir aðilar hafi skitið gjörsamlega upp á bak. Mér finnst að Davíð Oddsson eigi að vera löngu búinn að segja af sér sem Seðlabankastjóri, enda er maðurinn VERR en óhæfur í starfið.

Að þetta Icesave mál hafi farið fram hjá yfirvöldum þar til þau fengu það í hausinn er ekkert nema hálfvitaskapur.

Nei, strákar, yfirvöld og bankakerfi bera ríkulega ábyrgð í öllu þessu máli.

Hins vegar ber hinn almenni borgari, Jón og Gunna, eins og Guðmundur kallar þau, einnig ríkulega ábyrgð í öðrum málefnum. Það er þetta sem Jón og Gunna neita að viðurkenna, þeim finnst þau hafa lifað lífinu mjög ábyrgt, af flestu því sem ég sé. Reiðin kraumar í þjóðfélaginu, en enginn vill taka ábyrgð, ekki ríku kallarnir í bönkunum, ekki svefngenglarnir á alþingi og alls ekki Jón og Gunna. Allir benda á hvorn annan meðan þeir telja sig hafa verið ábyrgt fólk.

Ég er búinn að reyna að lýsa því hvernig Jón og Gunna eru búin að vera að spenna bogann til hins ýtrasta, í stað þess að reyna að safna og spara. Svo dæmi skal tekið þá var húsnæðisverð keyrt upp af engum nema Jóni og Gunnu. Verðið flaug úr 75.000 kr. fermetrinn upp í 300.000 kr. fermetrinn á einungis 8 árum. Það eitt að ofurlán voru leyfð og við líði virðist hafa verið nóg fyrir flesta Íslendinga til þess að sjá sér fært að taka slík lán. Fólk var að taka allt of mikla áhættu undanfarin ár. Áhætta sem aldrei hefði borgað sig nema að góðærið hefði staðið að eilífu. Það er glapræðis-fjárhættuspil.

Nei Vilhjálmur, það er ekki Jóni og Gunnu að kenna að Seðlabanki og fjármálastofnanir virki ekki eins og þær eigi að gera. Það er hins vegar Jóni og Gunnu algjörlega að kenna að þau hafi tekið þátt í fjárhættuspili undanfarinna ára á lánamarkaði. Hvorki Jón né Gunna þurftu að taka þátt í þessu glæfraspili og tel ég mig gott dæmi um mann sem að lét það vera en lifir samt góðu lífi.

Icesave og hrun bankakerfisins er ekki Jóni og Gunnu að kenna, lánavandræði þeirra eru þeim hins vegar gjörsamlega að kenna. Það var þeirra ákvörðun að lifa á mörkunum í miðju góðæri. Ég er gott dæmi um mann sem að lifði langt innan þeirra marka sem ég gat og mun lengra, hlutfallslega séð, heldur en langflestir Íslendingar undanfarin ár. Það var mín ákvörðun.

Vilhjálmur, lánavandamál hverrar fjölskyldu fyrir sig er í langflestum tilfellum eingöngu á þeirra ábyrgð, ekki neins annars. Ef að fjölskylda er búin að keyra sig í skuldakaf vegna fáránlegra lána þá er það þeirra mál. Ég er í mjög góðum málum skuldalega séð einfaldlega af því að ég neitaði að taka þátt í þessu fáránlega neyslufylleríi undanfarinna ára.

Það er þetta sem ég er að benda á. Fólk á ekki að kenna neinum um sín lánavandamál nema sjálfum sér. Íslenska þjóðin tók gríðarlega áhættu undanfarin ár einfaldlega af því henni fannst hún eiga skilið að taka framhjáhlaup í lífgæðakapphlaupinu. Ef íslenska þjóðin hefði tekið sömu ákvarðanir og ég þá væru ef til vill flestir í jafngóðum málum og ég. Eins og annar ykkar sagði, maður uppsker eins og maður sáir.

Afnám verðtryggingar sýnist mér einungist bitna á þeim sem að neituðu að leggja framtíð sína að veði í lífgæðakapphlaupi undanfarinna ára.

Ég afsaka aftur ef ég hljóma reiður eða maður í árásarhug. Ég er einungis að reyna að útskýra málefnið frá mínu sjónarhorni, sem ég tel vera annað en flestra Íslendinga um þessar mundir. Af eigin reynslu þá eru slík sjónarmið oft litin aggressívari en þeim er ætlað, það er ekki meiningin. Ég vorkenni þeim Íslendingum sem í fjárhagskröggum eru, en mér finnst einfaldlega að fólk eigi að þurfa að lifa með sínum ákvörðunum í lífinu. Mér finnst virkilega að ég eigi ekki að þurfa að borga fyrir mistök annarra. Eins og er stefnir í að ég þurfi að borga fyrir mistök allra, bankamanna, alþingis sem og flest allra Íslendinga. Í öllum tilfellum finnst mér það óréttlátt.

Þór (IP-tala skráð) 13.1.2009 kl. 16:57

14 Smámynd: Vilhjálmur Árnason

Þú færð þín verðlaun fyrir að hafa verið séður í fjármálum. Og það er gott mál.

En það sem þú vilt halda fram í stuttu máli að fólkið beri ábyrgð á því að ísland ver gert að vogunnarsjóði fyrir bankana til þess að græða á þeim sem voru ekki eins séðir og þú og nóta bena þeir eiga ekki að borga eðlilega vexti og afborganir heldur tvöfalda lánsupphæð. Og bankarnir sitja á tugum miljarða gengismismun í gróða.

Vilhjálmur Árnason, 17.1.2009 kl. 14:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband